Fréttir

Bygging sundlaugar á Eskifirði
29. apríl 2005

Bygging sundlaugar á Eskifirði

Nýverið undirrituðu ÍAV og Eignarhaldsfélagið Fasteign hf samning um byggingu nýrrar sundlaugar á Eskifirði. Um er að ræða 25 metra útisundlaug, rennibrautarlaug, vaðlaug, tvo heita potta og aðalbyggingu. Aðalbyggingin verður tæplega 540 fm, að stærð, auk gufu og kjallara, samtals rúmlega 1.100 fm. Samningsupphæð nam 328 mkr. Verkið mun hefjast fljótlega og eru verklok áætluð í mars 2006.


Samningur um stækkun Lagarfossvirkjunar undirritaður
08. apríl 2005

Samningur um stækkun Lagarfossvirkjunar undirritaður

ÍAV og RARIK hafa undirritað samning um byggingarhluta fyrir stækkun Lagarfossvirkjunar. Að afloknu útboði var ákveðið að ganga til samninga við ÍAV og hinn 14. mars s.l. gaf RARIK því út svokallað veitingarbréf þeim til handa. Undirritun verksamnings fór fram föstudaginn 8. apríl 2005. Verkefnið felur í sér stækkun stöðvarhúss til norðurs, nýtt inntak norðan við það sem fyrir er og þrýstivatnsstokk á milli nýja inntaksins og stöðvarhúsviðbyggingar. Ennfremur rýmkun aðrennslisskurðar með tilheyrandi vatnsvarnarvirkjum og stíflugerð, ásamt öðrum tengdum verkum sem falla undir verksamning.

ÍAV afhendir nýtt hótel
01. apríl 2005

ÍAV afhendir nýtt hótel

Hótel Reykjavík Centrum á horni Aðalstrætis og Túngötu opnaði formlega þann 1. apríl. Hótelið er 3.700 fermetrar að stærð á þremur til fjórum hæðum með samtals 89 íbúðum. Hótelið er að luta enduruppgerð á sögufrægum húsum; Uppsölum, Aðalstræti 16 og Fjalakettinum.

Útboð lóða í Þrastarhöfða
14. mars 2005

Útboð lóða í Þrastarhöfða

Föstudaginn 11. mars rann út frestur til að skila inn tilboðum í lóðir við Þrastarhöfða í Mosfellsbæ. Um er að ræða 13 einbýlishúsalóðir og eina parhúsalóð. Alls bárust 638 tilboð í lóðirnar frá 80 aðilum. Hæstu boð í allar einbýlishúsalóðirnar voru á bilinu 12,5 – 15 milljónir króna. Lóðirnar verða byggingarhæfar 15. júlí nk.

Nýr vefur ÍAV
11. febrúar 2005

Nýr vefur ÍAV

Í dag var nýr vefur ÍAV hf. opnaður. Það er von okkar að hann verði okkar viðskiptavinum til gagns og ánægju. Við höfum lagt okkur fram um að gera íbúðahlutann aðgengilegan og markvissan þannig að sem auðveldast sé að finna íbúð við hæfi og fá sem skilmerkilegastar upplýsingar.

Íbúðir við Herjólfsgötu í Hafnarfirði
10. febrúar 2005

Íbúðir við Herjólfsgötu í Hafnarfirði

Unnið er að byggingu 49 íbúða við Herjólfsgötu 36 - 40 í Hafnarfirði fyrir 60 ára og eldri. Þetta eru 3 fjögurra hæða fjölbýlishús með 16 íbúðum hvert auk húsvarðaíbúðar. Bílageymsla fylgir húsunum og er gert ráð fyrir 44 stæðum í henni.

Sýning á nýjum og glæsilegum þjónustuhúsum við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði
09. febrúar 2005

Sýning á nýjum og glæsilegum þjónustuhúsum við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði

Þriðjudaginn 1. febrúar og miðvikudaginn 2. febrúar var opið hús að Lækjarbrún 5 í Hveragerði (rétt við Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins) milli kl. 15 og 18. Þar gafst gestum kostur á að skoða glæsilegt raðhús. ÍAV eru með á sölu tveggja og þriggja herbergja hús frá 86 til 111 fermetra hönnuð af Hróbjarti Hróbjartssyni arkitekt hjá VA arkitektum. Við kaup á þjónustuíbúð ÍAV gerast kaupendur aðilar að samningi við HNLFÍ, þar sem þeir fá aðgang að og njóta margvíslegrar þjónustu stofnunarinnar.

Bygging þjónustustöðvar Esso í Fossvogi
09. febrúar 2005

Bygging þjónustustöðvar Esso í Fossvogi

Nýverið undirrituðu ÍAV og Olíufélagið Esso samning um byggingu nýrrar þjónustustöðvar Esso við Kringlumýrarbraut 100 í Fossvogi. Stöðin verður um 400 fermetrar að stærð og mun hún verða með svipuðu sniði og stöðvarnar við Borgartún og Háholt í Mosfellsbæ sem ÍAV byggðu. ÍAV munu sjá um framkvæmdina en þær hefjast síðar í mánuðinum. Gert er ráð fyrir að stöðin opni í sumar.

Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri fokhelt
09. febrúar 2005

Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri fokhelt

Uppsteypu á rannsókna- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri er nú lokið og er húsið fokhelt. Að jafnaði hafa milli 30 og 60 starfsmenn ÍAV og undirverktakar unnið við byggingu hússins frá því að fyrsta skóflustungan var tekin 10. júlí síðastliðinn.