Almennar fréttir

07. október 2009

Framkvæmdafréttir úr Helguvík

Framkvæmdir við álver í Helguvík hófust um miðjan maí 2008 en ÍAV sér um byggingu kerskálanna fyrir Norðurál ehf. Fyrirhuguð framleiðsla kerskálanna átti í upphafi að vera 180.000 tonn og áætlanir gerðu ráð fyrir að framleiðsla hæfist haustið 2010. Eftir almenna efnahagserfiðleika hér á landi var tekin sú ákvörðun að skipta verkinu niður í tvo 90.000 tonna áfanga og er verið að reisa fyrri áfangann um þessar mundir. Kerskálarnir verða tveir og liggja samsíða, hvor um sig 620 metra langir. Vegna fyrrgreindrar áfangaskiptingar verða skálarnir í fyrsta áfanga ekki nema 340 metra langir.

Þegar hefur verið lokið við að reisa burðarsúlur, staðsteyptar undirstöður kera og er vinna við botnplötu ásamt forsteyptum langveggjum langt komin. Vinna við stálvirkið og uppsteypa vinnslugólfa er einnig hafin. Jarðvinnu og vinnu við frárennsliskerfi er að mestu lokið en sú vinna var nauðsynlegur undanfari burðarvirkjanna. Auk þessa er lagning jarðskauta og ídráttarröra í jörðu í komin vel á veg.

Til gamans má geta þess að hver forsteypt súla er um 20 tonn að þyngd og hver stálrammi er af svipaðri þyngd. Reiknað er með að vinna við klæðningu kerskálana ásamt uppsetningu rafkerfa í skála hefist vorið 2010.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn