Almennar fréttir

28. september 2016

Framkvæmdir við flugbrautir í fullum gangi

Flugbrautaendurnýjun á Keflavíkurflugvelli er eitt af stærstu verkefnunum sem ÍAV er að fást við þessa dagana, samtals vel á sjötta milljarð króna skv. verksamningi.

Verkið er fólgið í endurnýjun malbiks og raflagna á aðalflugbrautunum á Keflavíkurflugvelli auk þess sem tengingar milli akstursleiða og flugbrauta eru líka lagfærðar að hluta. 

Enn er verið að malbika brautirnar þegar veður gefur og í augnablikinu stefnir í að takast muni að ljúka mest krefjandi malbikunarþáttunum þetta árið um mánaðamótin september-október.  Þar með kemst verkið fyrir vind fyrir veturinn.  Áfram verður unnið í jarðvinnu fram eftir hausti eins og veður leyfir og síðan verður tekið til við bæði jarðvinnu, lagnir og malbikun um leið og vorar á næsta ári.

Umfang einstakra magnþátta í verkinu er stórt.  Leggja á 155 km af ídráttarrörum, setja niður ríflega 370 gegnumdráttarbrunna, leggja 90 km af jarðvír og leggja niður 100.000 tonn af malbiki auk mikillar jarðvinnu í skurðum og efnisútskiptum.

Stærsti undirverktaki í verkefninu er Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas sem flutti inn og setti upp nýja malbikunarstöð við suðurenda flugvallarins sérstaklega fyrir þetta verkefni. 

Undirverktaki við jarðvegsborun var sóttur til Bretlands og heitir PBU (UK) Ltd..  Tveir starfsmenn þeirra hafa verið á svæðinu frá því í byrjun ágúst og skilað sinni vinnu með miklum ágætum með stefnustýrðum jarðbor án lofthamars.  Þannig bor hentar mjög vel í verkefnum eins og þessu þar sem ekki má skemma burðarlagið undir brautunum.

Samtals eru starfsmenn í verkinu ríflega 50 fyrir utan malbikunarteymið sem telur hátt í 30 manns til viðbótar.

Verkkaupi er ISAVIA og verkefnisstjórar ÍAV eru Höskuldur Tryggvason og Jón Örn Jakobsson 

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn