Almennar fréttir

12. janúar 2018

GERVITUNGL TIL SÝNIS Á HÁSKÓLATORGI

Þann 15. janúar næstkomandi gefst landsmönnum einstakt tækifæri til að skoða gervitungl á Háskólatorgi en um er að ræða hátæknitungl sem notað er við að mynda jörðina úr mikilli hæð. Með myndunum verða til svokölluð fjarkönnunargögn sem byggjast á flóknum tölvumyndum sem nýtast t.d. við mjög margbrotnar landfræðilegar greiningar, við margs konar kortlagningu, greiningu umferðar á sjó og landi og einnig við greiningu ýmissa efnasambanda í lofthjúpi og á yfirborði jarðar. 

Margir ætla að gervitungl séu gríðarstór, sem þau hafa auðvitað verið og sum um tíu tonn að þyngd, en með aukinni þróun, og ekki síst með hagnýtingu nanó-tækni, hafa þau farið hratt minnkandi.  Gervitunglið á Háskólarorgi, sem heitir Planet Labs,  er mjög smátt miðað við „hefðbundin“ gervitungl eða aðeins um fjögur kílógrömm að þyngd og það er einungis 30 cm. á lengd og 10 cm. á breidd. Tunglinu er skotið á sporbaug með hefðbundnum eldflaugum og þeim komið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar og þaðan sett á sporbaug í 500 kílómetra hæð yfir jörðu.  Þau fljúga síðan milli póla eða í Norður-Suður yfir jörðinni sem snýst frá austri til vesturs þannig að tunglin skanna jörðina alla einu sinni á sólarhring.

Það er íslenska fyrirtækið ÍAV sem hefur milligöngu um flutning á tunglinu til landsins en ÍAV þjónustar jarðstöð bandaríska fyrirtækisins Planet Labs sem rekur þessi tungl (www.planet.com), en jarðstöðin er á Ásbrú í Reykjanesbæ.  Á einum sólarhring senda gervitunglin sem Planet Labs rekur fimm til sex terabæt af gögnum og jarðstöð á Ásbrú tekur við hartnær helmingnum af þeim myndum.

Þess má geta að ÍAV sá um byggingu á Háskólatorgi þar sem gervitunglið verður sýnt. 

Hlusta á viðtal við Jón Atla Benediktsson rektor HÍ og prófessor í rafmagnsverkfræði

Hér má sjá frétt RÚV ásamt viðtali við Jón Atla. (Aðgengilegt til 15. apríl 2018)

Öllum er velkomið að koma á Háskólatorg að skoða gervitunglið dagana 15. til 18 janúar 

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn