Almennar fréttir

29. apríl 2013

Harpa hlutskörpust í arkitektasamkeppni Evrópu

Í dag var tilkynnt að Harpa hefði orðið hlutskörpust í arkitektasamkeppni Evrópu og hljóta arkitektar og hönnuðir hennar þar með Mies van der Rohe verðlaunin sem veitt eru fyrir nútíma arkitektúr. Verðlaunin hafa verið veitt undanfarin 25 ár en hin virta Mies van der Rohe stofnun í Barcelona vinnur náið með dómnefnd að útnefningu til verðlaunanna.

Harpa var fyrr á þessu ári valin til úrslita í arkitektasamkeppninni ásamt fimm öðrum byggingum í Evrópu en alls voru sendar inn 335 tillögur af byggingum frá 37 löndum. Verðlaunin eru því gríðarlegur sigur fyrir arkitekta og hönnuði sem komu að hönnun Hörpu. Tilnefndir til verðlauna vegna Hörpunnar eru: Batteríið arkitektar, Henning Larsen Architects og stúdíó Ólafs Elíasson.

Peer Teglgaard Jeppesen frá Henning Larsen Architects sagði, við móttöku verðlaunanna, að arkitekta- og hönnunarteymið væri að sjálfsögðu afar stolt af verðlaununum. Harpa væri árangur frábærs samstarfs mjög margra aðila sem lögðu mikið á sig til að verkefnið gengi upp.

Við hjá ÍAV erum afar stolt yfir því að hafa séð um verk- og hönnunarstjórn ásamt því að vera aðalverktaki Hörpu.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn