Almennar fréttir

17. apríl 2015

Landsnet semur við ÍAV um byggingu tengivirkis í Helguvík

Landsnet undirritaði í dag samkomulag við Íslenska aðalverktaka (ÍAV) um byggingu á nýju tengivirki Landsnets í Helguvík sem fengið hefur nafnið Stakkur. Samningurinn hljóðar upp á 341 milljón króna og er miðað við að framkvæmdum verið að fullu lokið í árslok 2015.

Nýja tengivirkið er við hlið kísilvers United Silicon (USi) við Stakksbraut og hannað með hugsanlega stækkun í huga. Þrír 132 kV rofar verða í tengivirkinu og tveir spennar, annar sem tengist kísilverinu og hinn í eigu HS Veitna. Verkið felur í sér jarðvinnu og byggingu óeinangraðs stálgrindarhúss yfir rofabúnaðinn, byggingu steyptra spennarýma með stálgrindarþaki og byggingu steypts einangraðs stjórnbúnaðarhúss. Húsin verða sambyggð á einni hæð, samtals 750 fermetrar að grunnfleti.

Undirbúningur tengivirkisins Stakks hófst hjá Landsneti haustið 2014 í framhaldi af samningi um flutning raforku til kísilvers USi í Helguvík. Hann kveður á um að tengingin verði tilbúin 1. febrúar 2016 en auk nýja tengivirkisins Stakks, felur verkefnið í sér uppsetningu á nýjum rofa í tengivirkinu á Fitjum og 9 km langan 132 kV jarðstreng milli Fitja og Helguvíkur. Gengið var frá samningum um kaup á jarðstreng og spenni árið 2014. Samið var við þýska fyrirtækið Nexans um jarðstrengskaupin og verður hann lagður sumarið 2015. 

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn