Almennar fréttir

30. nóvember 2009

Lokasprenging í Bolungarvíkurgöngum

Síðasta sprengingin í Bolungarvíkurgöngum var sprengd á laugardaginn og var það Kristján L. Möller samgönguráðherra sem það gerði. Um 230 gestir voru saman komnir inni í göngunum þegar sprengt var og voru öryggisráðstafanir miklar. Um kvöldið fögnuðu starfsmenn Ósafls með samstarfsaðilum á verkstæðinu að Ósi sem búið var að gera að hinum fínasta skemmtistað.

Áður en lokasprengingin fór fram buðu Bolungarvíkurkaupstaður og Ísafjarðarbær til veislu í íþróttahúsi Bolungarvíkur þar sem fluttar voru ræður og gestir nutu tónlistar. Boðið var upp á glæsilega tertu sem var eftirlíking ganganna í hlutföllunum 1 á móti 1000. Ljóst er að mikil eftirvænting er hjá íbúum fyrir vestan með að brátt verður hægt að keyra í gegnum göngin og var því mikil hátíð í bænum.

Á sunnudaginn var svo boðið upp á rútuferðir í gegnum göngin. Mikill áhugi var á ferðunum og nýttu um 400 manns tækifærið og skoðuðu göngin. Auk rútuferðanna bauð Ósafl til kaffisamsætis í matsal og þar var einnig hægt að skoða myndir af framgangi verksins.  Einnig voru til sýnis steinar sem komið hafa í ljós við gerð ganganna.

 

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn