Almennar fréttir

10. nóvember 2017

Marshall húsið hlýtur hönnunarverðlaun Íslands 2017

Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt hönnunarsamfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt að vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar.

Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2017 eru Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason arkitektar Kurt og Pí, fyrir Marshall-húsið. Þeir leiddu hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta.

ÍAV sáu um allar framkvæmdir. Byggingastjóri var Oddur H. Oddsson. Verkkaupi var HB Grandi.

Marshall-húsið er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og Marshall Restaurant + Bar. 


Umsögn dómnefndar:

„Verkið kristallar vel heppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Arkitektarnir hafa þróað verkefnið frá hugmyndavinnu til útfærslu og leitt saman breiðan hóp aðila til að skapa heilsteypt verk. 

Í verkinu er vel unnið með sögu byggingarinnar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður fyrir samtímalist í Reykjavík á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Marshall húsið er gott  dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verður til nýsköpun í borgarumhverfinu.“

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn