Almennar fréttir

22. september 2005

Portus Group með vænlegasta tilboðið í tónlistarhús

Portus Group, sem er í eigu Íslenskra aðalverktaka hf., Landsafls hf., og Nýsis hf., er með vænlegasta tilboðið í hönnun, byggingu og rekstur tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels (TRH) við Austurhöfnina í Reykjavík samkvæmt niðurstöðu matsnefndar og sérfræðinga Austurhafnar-TR sem tilkynnt var í Þjóðmenningarhúsinu við hátíðlega athöfn.

Stjórn Austurhafnar-TR hefur ákveðið að ganga til samninga um verkefnið við Portus Group. Tilboð félagsins miðast við að stofnkostnaður við tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina verði rúmlega 12 milljarðar króna.

ÍAV stýriverktaki

ÍAV eru stýriverktaki verksins en arkitektar Portus Group eru HLT, Henning Larsens Tegnestue A/S og Batteríið ehf. Hönnunarstjórn er í höndum Batterísins, HLT og verkfræðistofunnar Rambøll Danmark A/S. Verkfræðistofurnar Hnit hf. og Hönnun hf. eru tæknilegir ráðgjafar. Útlit hússins er að miklu leyti verk listamannsins og hönnuðarins Ólafs Elíassonar og Vladimir Ashkenazy er listrænn ráðgjafi Portus Group varðandi dagskrá fyrstu árin.

Til að meta tilboðin og tillögurnar var komið upp matsnefnd sem skipuð var þeim Stefáni Baldurssyni, Kristrúnu Heimisdóttur og Orra Haukssyni. Þeim til aðstoðar við mat á tillögunum voru undirnefndir, ráðgjafar og sérfræðingar.

Við mat á tillögunum var einkum horft til fimm meginþátta og vógu byggingarlausnir, þ.e. arkitektúr, skipulag svæðis og innra fyrirkomulag hússins og salanna 45%. Styrkur og hæfni bjóðenda vó 5% sem og rekstur fasteigna og bílastæða. Viðskiptaáætlun vigtaði 25% og þjónusta við og aðstaða fyrir Sinfóníuhljómsveitina og aðra listamenn, stjórnunarfyrirkomulag og fyrirhugaðar dagskráráætlanir vógu 20%.

Í umsögn matsnefndarinnar sem Stefán Baldursson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri, kynnti í Þjóðmenningarhúsinu í dag, kom fram að mjótt hefði verið á munum milli tveggja lokatilllagna frá Portus Group og Klasa/Fasteign. Á endanum fór þó svo að vinningstillaga Portus Group hlaut hæstu einkunn í fimm af átta matsflokkum, þ.e. byggingarlist, lausn á rekstri bílastæða, fyrir viðskiptaáætlun, fyrir fjárhagslegan og stjórnunarlegan styrk og fyrir metnaðarfulla dagskrá og starfsemisáætlun.

„Er það einróma álit matsnefndarinnar að vinningstillagan sé afar glæsileg í alla staði og að byggingin verði áhrifamikið kennileiti í ásýnd Reykjavíkur,“ sagði Stefán m.a. í ávarpi sínu. Sagði hann að fyrirtækið að baki tilboðinu væri öflugt og fjárhagslega sterkt, tillagan fæli í sér stjórnkerfi sem tryggði listrænan metnað og ágæta aðstöðu fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og væri því í fullu samræmi við öll menningarleg meginmarkmið verkefnisins.

12 milljarða stofnkostnaður

Báðir bjóðendur eru bundnir af tilboðum sínum í 120 daga frá skiladegi og ef svo ólíklega vildi til að ekki reyndist unnt að ná samningum við handafa vinningstillögunnar, getur Austurhöfn-TR tekið upp viðræður um samninga við hinn bjóðandann.

Tilboð Portus Group miðast við að stofnkostnaður við tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina verði rúmlega 12 milljarðar króna en endurskoðuð kostnaðaráætlun Austurhafnar-TR gerði ráð fyrir að stofnkostnaður gæti orðið um 8,5 milljarður, að meðtöldum kostnaði við bílastæði og lóð. Í tilkynningu Austurhafnar-TR segir, að þrátt fyrir hærri stofnkostnað miðist bæði tilboðin eftir sem áður við að árlegt framlag eigenda Austurhafnar, þ.e. ríkis og borgar, verði að hámarki 600 milljónir króna á ári á samningstímanum, eins og áður hafði verið ákveðið.
 

Breytt miðborg

Samkvæmt tillögu Portus Group verður tónlistar- og ráðstefnubyggingin staðsett austarlega á byggingarlóðinni. Að hluta til stendur húsið á landfyllingu, sem gerð verður í Austurbugtinni þar sem hafnarbakkinn verður færður fram. Samanlögð stærð tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar er um 23.000 fermetrar og mun byggingin m.a. rúma tónleikasal sem tekur 1800 manns í sæti, tvískiptanlegan ráðstefnusal með 750 sætum, kammermúsíksal með 450 sætum og minni sal/aðstöðu fyrir 180-200 áheyrendur. Einnig er gert ráð fyrir hótelbyggingu sem verður álíka stór og tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðin og er hún staðsett á vesturhluta lóðarinnar.

Þá felur tillagan einnig í sér uppbyggingu á aðliggjandi lóðum, sem vinningshafinn kaupir byggingarrétt á og fær að byggja á fyrir eigin reikning. Alls nemur heildarbyggingarmagnið, sem tillagan nær til, yfir 80.000 fermetrum og mun gerbreyta ásýnd miðborgarinnar.

Twitter Facebook
Til baka

Seðlabanki Íslands
27. janúar 2023

Seðlabanki Íslands

Samningur um endurbætur og stækkun á byggingu Seðlabanka Íslands var undirritaður rafrænt þann 29. desember. Verkið felst í að rífa niður og endurbyggja rými á jarðhæð, 1. hæð og 2. hæð ásamt því að reisa nýbyggingu í hjarta bankans í tengslum við aðalinngang og móttöku.

Nýtt knattspyrnuhús fyrir íþróttafélagið Hauka
22. desember 2022

Nýtt knattspyrnuhús fyrir íþróttafélagið Hauka

Samningur um byggingu 1. áfanga nýs knatthúss fyrir íþróttafélagið Hauka á svæði félagsins á Völlunum í Hafnarfirði var undirritaður í ráðhúsi Hafnarfjarðar þann 28. nóvember. Um er að ræða reisingu og heildarfrágang á stálgrindarhúsi með steyptum veggjum yfir löglegan knattspyrnuvöll þar sem fram eiga að geta farið keppnisleikir í hvaða móti sem er. Enn fremur verður steypt þjónustubygging við enda vallarins sem ekki verður gengið frá að innan. Af tilefni undirritunar samningsins höfðu Hafnfirðingar látið baka glæsilega tertu í líki hússins

Fréttasafn