Almennar fréttir

20. janúar 2011

Svissneska verktakafyrirtækið Marti yfirtekur starfsemi Íslenskra aðalverktaka

Íslenskir aðalverktakar hf. (ÍAV) hafa skipt um eigendur. Arion banki og svissneska verktakafyrirtækið Marti Holding AG (Marti) hafa að undanförnu unnið með stjórnendum fyrirtækisins að endurskipulagningu þess. Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að framtíð ÍAV sé best tryggð með yfirtöku Marti á ÍAV og samhliða mun Arion banki taka yfir fasteignahluta félagsins. Endurskipulagningu ÍAV mun ljúka á næstu vikum að lokinni áreiðanleikakönnun.

Marti sem nú eignast og tekur yfir rekstur ÍAV, er svissneskt fjölskyldufyrirtæki sem á og rekur yfir 60 verktakafyrirtæki í Evrópu. Félagið hefur um árabil unnið með ÍAV á sviði jarðgangagerðar og var undirverktaki við jarðgangagerð í stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar. Þá er Marti einnig núverandi samstarfsaðili ÍAV við gerð Bolungarvíkurganga og snjóflóðavarnagarðs í Bolungarvík. Félagið er fjárhagslega mjög sterkt og hefur unnið að verkefnum víða um heim frá árinu 1922. Forráðamenn Marti hafa góða þekkingu á íslenskum aðstæðum og lýsa áhuga sínum á að taka þátt til framtíðar í uppbyggingu hér á landi og hyggst fyrirtækið ennfremur nýta sér þekkingu og reynslu Íslendinga við framkvæmdir erlendis.

Með þessari niðurstöðu eru tryggð um 400 störf hjá ÍAV, en starfsmannafjöldi ræðst þó af verkefnastöðu á hverjum tíma. Eigendaskipti á ÍAV skapa einnig ný tækifæri fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess, m.a. með þátttöku í verkefnum erlendis. ÍAV mun áfram verða rekið í sömu mynd en nú sem íslenskt dótturfélag Marti og mun njóta styrks Marti samstæðunnar.

Nánari upplýsingar: Gunnar Sverrisson í síma 530 4200

 

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn