Almennar fréttir

30. nóvember 2018

Verkstaða á Móavegi 2-12

Stöðugur stígandi hefur verið í verkinu á Móavegi, frá því verksamningur var undirritaður þann 16. febrúar 2018.  Verkefnið, sem byggt samkvæmt lögum um almennar íbúðir og telur samtals 155 íbúðir og er byggt á vegum ÍAV fyrir Bjarg íbúðafélag hses.  Verksamningsáætlun tiltekur að verkinu skuli skilað í áföngum fram í júní 2020.

Á verkstað hefur verkefninu verið skipt í þrjá áfanga, þar sem verkstaða í hverjum áfanga var sem hér segir þann 30. nóvember 2018:

Áfangi I, Móavegur 12, 10 og bílakjallari

Glugga- og hurðaísetningu og frágangur á þakbrúnum í báðum blokkum sem samtals eru með 59 íbúðum er að ljúka fyrir jól 2018.  Búið er að steypa upp og loka bílakjallara, malbika í honum gólfið og merkja stæði.  Hleðslu á innveggjum er 85% lokið, stofnlagnir pípulagna, loftræsingar og rafmagns eru 45% frágengnar.  Spörtlun og málun er hafin í fyrstu íbúðum.

Samkvæmt verkáætlun er miðað við afhendingu á áfanganum um mitt ár 2019.

Áfangi II, Móavegur 8 og 6

Unnið er hörðum höndum að því að ljúka uppsteypu í áfanga II um miðjan desember 2018.  Við þau tímamót verður búið að steypa upp fjórar blokkir af sex í verkefninu. 

Frágangur á þakeiningum, gluggum og hurðum í þessum 43 íbúða áfanga hefst í janúar 2019.  Markmið stjórnenda og undirverktaka verksins eru að ná fokheldi í áfanganum fyrir hvítasunnu 2019.

Áfangi III, Móavegur 4 og 2

Lagnavinnu í jörðu er lokið og var síðasta botnplata íbúða steypt þann 23. nóvember síðastliðinn.  Samtals eru 53 íbúðir undir í áfanga III.

Hafist verður handa við steypuvinnu ofan botnplötu fyrir báðar blokkir í janúar 2019.  Sameiginlegt markmið stjórnenda og undirverktaka verksins eru að steypuvinnu verði lokið um páska 2019. 

Að steypuvinnu lokinni á eftir að draga verulega úr hávaðmengun frá framkvæmdum en nágrannar hafa sýnt umtalsvert og ósjálfsagt langlundargeð fyrir á tímum hávaðasamri vinnugleði iðnaðarmanna í steypuvinnu á verkstað.

Þegar uppsteypu lýkur tekur við inni- og frágangsvinna í blokkum og á lóð.

Fram á vor 2019 starfa á bilinu 60-70 manns í verkinu á degi hverjum.  Hópurinn samanstendur af stjórnendum, faglærðum iðnaðarmönnum og sérhæfðum verkamönnum af 12 þjóðernum þ.e. frá Íslandi, Póllandi, Eistlandi, Rússlandi, Rúmeníu, Lettlandi, Litháen, Tékklandi, Englandi, Skotlandi, Búlgaríu og Alsír.

Viðhengd mynd var tekin 27. nóvember 2018, en eins og myndin sýnir sést hvernig blokkirnar raða sér á byggingarreitinn.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn