Almennar fréttir

27. september 2010

Vígsla Bolungarvíkurganga

Bolungarvíkurgöng voru vígð við hátíðlega athöfn laugardaginn 25. september. Athöfnin hófst á því að minnisvarði um þá sem látist hafa á ferð sinni um Óshlíðarveg, var afhjúpaður og látinna minnst. Heimamönnum gafst síðan tækifæri til að hlaupa eða hjóla í gegnum göngin.

Formleg opnun ganganna var síðan í höndum Ögmundar Jónassonar samgönguráðherra en honum til fulltingis voru Kristjáni L. Möller fyrrverandi samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. Þeir klipptu á borða Bolungarvíkurmegin en að því loknu var umferð hleypt í gegnum göngin. Kaffisamsæti var að því loknu í íþróttahúsi Bolungarvíkur en þar fluttu meðal annars ávarp, forseti Íslands, samgönguráðherra og fleiri. Í ræðum var verktakanum Ósafli þökkuð sérstaklega, vönduð og fagleg vinnubrögð.

Mikið fjölmenni var saman komið beggja vegna ganganna og greinilegt var að heimamenn biðu í ofvæni eftir því að þessi mikla samgöngubót yrði opnuð.

Heildarlengd ganganna er 5400 metrar. Í tengslum við göngin voru einnig lagðir nýir vegir og brýr. Ósafl óskar Vestfirðingum til hamingju með þessa miklu samgöngubót.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn