Almennar fréttir

06. júní 2008

ÍAV byggja kerskála í Helguvík

ÍAV byggja kerskála í Helguvík

Verður fyrsta álverið í heiminum sem eingöngu er knúið jarðvarmaorku

Norðurál og Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) undirrituðu í dag samninga um byggingu kerskála fyrir álver Norðuráls í Helguvík. Um leið var fyrsta skóflustungan að kerskála tekin formlega að viðstöddu fjölmenni. Undirbúningsframkvæmdir á lóð fyrirtækisins eru hafnar og byggingarframkvæmdir við kerskála hefjast á þessu ári. Framkvæmdirnar fela m.a. í sér aðstöðusköpun á vinnusvæðinu, jarðvinnu, uppsteypu, forsteyptar einingar, stálvirki, klæðningar og ýmsan frágang.

Heildarkostnaður við fyrsta áfanga álversins, sem tekinn verður í gagnið fyrir árslok árið 2010, nemur um 70 til 80 milljörðum íslenskra króna. Ef miðað er við álverð í dag er áætlað útflutningsverðmæti þegar fyrsti áfangi verður kominn í fullan rekstur um 35 milljarðar á áriStarfsmannafjöldi verður um 400 manns og að auki skapast afleidd störf í samfélaginu fyrir um 600 manns til viðbótar.

Íslensk áhersla

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, fagnar þessum áfanga og væntir góðs af samstarfinu við ÍAV. “Íslenskir aðalverktakar hafa víðtæka reynslu af stórum framkvæmdum og fyrirtækið á rætur sínar hér á Suðurnesjum.” Að sögn Ragnars er það ánægjuefni að álverið í Helguvík verður fyrsta álverið heiminum sem eingöngu er knúið raforku frá jarðvarma. “Á Grundartanga byggðum við í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja fyrstu kerlínuna sem eingöngu er knúin jarðvarmaorku. Öflug samvinna við þessi fyrirtæki hefur fætt af sér nýja þekkingu allra hlutaðeigandi og skapað ný sóknarfæri. Undirbúningur verkefnisins í Helguvík hefur einkennst af afar góðu samtarfi við orkufyrirtækin og heimamenn og stuðningur Suðurnesjabúa hefur verið mikill. Miklar kröfur eru gerðar til okkar, t.d. í umhverfismálum og útlitshönnun, en það hefur verið gaman að vinna að lausnum á slíkum málum með heimafólki. Niðurstaðan verður álver í allra fremstu röð sem við getum verið mjög stolt af.”

Gunnar Sverrisson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka, segir verkefnið í Helguvík koma á góðum tíma fyrir byggingariðnaðinn og íslenskt samfélag. „Talsvert hefur dregið úr framkvæmdum á hér á landi í framhaldi af verklokum í stórframkvæmdum á austurlandi. Einnig hefur hægt á íbúðamarkaðnum síðustu mánuði. Við hjá ÍAV erum með góða verkefnastöðu um þessar mundir og bygging Álvers í Helguvík fyrir Norðurál kemur til með að tryggja áframhald þar á. Ég tel að tilkoma álvers í Helguvík sé dæmi um þjóðhagslega hagkvæmt verkefni sem kemur með innspýtingu í efnahagslífið á hárréttum tíma og gefur hagkerfinu tækifæri á mýkri lendingu en ella og án þess að valda þenslu eða skekkja íslenskan vinnumarkað“.

Ný meginstoð atvinnulífs

Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, áréttar mikilvægi verkefnisins í Helguvík fyrir atvinnusvæði álversins sem spannar allt frá Vogum og Grindavík til Sandgerðis, Reykjanesbæjar og Garðs. “Öll sveitarfélög á svæðinu hafa lýst yfir stuðningi við byggingu álversins og stuðningur meðal almennings er mikilli. Ég verð vör við sívaxandi eftirvæntingu hjá mínu fólki og þar er auðvitað horft til þeirrar kjölfestu í atvinnu og þeirra tekjumöguleika sem álverið mun skapa þegar sjávarútvegurinn er að gefa eftir. Hér býr raunsætt fólk sem veit hvað það kostar að lifa mannsæmandi lífi og mennta börnin sín. Stöðugleiki í atvinnuframboði leiðir ósköp einfaldlega af sér stöðugra og betra samfélag.”

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, tekur í sama streng. “Hér ríkir mikill einhugur um uppbyggingu álvers Norðuráls í Helguvík. Það eru jafnt fyrirtæki og einstaklingar hér á Suðurnesjum sem þrýsta á um sem skjótastan framgang verkefnisins. Í þessum hópi er t.d. áberandi fólk sem þarf nú að sækja vinnu um langan veg eða hefur ekki fullnægjandi atvinnu og tekjur. Væntingarnar eru að sönnu miklar en auðvitað er undirbúningsferlið langt og strangt. Á móti er það sanngjörn krafa að svona vel undirbúið og þjóðhagslega mikilvægt verkefni, sem styrkir undirstöður atvinnulífs, tryggir innstreymi erlends gjaldeyris og eykur tiltrú útlendinga á íslensku efnahagslífi, njóti sannmælis.”

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn