Almennar fréttir

07. desember 2010

ÍAV hefur framkvæmdir við fyrstu verksmiðju CRI við Svartsengi

ÍAV og íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hafa undirritað samning um byggingu fyrstu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum sem framleiðir vistvænt eldsneyti fyrir almennan markað úr koltvísýringsútblæstri. ÍAV mun reisa verksmiðjuna á lóð við jarðvarmaorkuver HS Orku við Svartsengi á Reykjanesi. Framkvæmdir við verksmiðjubygginguna eru nú hafnar og er áætlað að verksmiðjan verði komin í gagnið vorið 2011. Verksmiðjan notar raforku og koltvísýring úr gufu frá jarðvarmaverinu til að framleiða vistvænt eldsneyti fyrir bíla. Þessi framleiðslutækni var þróuð af CRI og er vernduð með einkaleyfi.

Fullbyggð verður framleiðslugeta verksmiðjunnar allt að 5 milljónir lítra af endurnýjanlegu metanóli á ári. Eldsneytið fer fyrst á innlendan markað. Endurnýjanlegu metanóli er hægt að blanda í bensín eða lífrænan dísil til þess að framleiða vistvænt eldsneyti án þess að breyta þurfi bílvélum eða dreifingu og flutningsmáta eldsneytis.

Endurnýjanlegt metanól eykur oktantölu bensíns og veldur hreinni bruna. Kostir eldsneytisins eru minni mengun, betri eldsneytisnýting auk þess sem nú verður hægt að framleiða eldsneyti fyrir íslenska bíla úr innlendri raforku, koltvísýringsmengun og vatni. Loftgæði aukast, útblástur bifreiða minnkar og minna verður flutt inn af olíu. Með tækni CRI opnast sá möguleiki að landið verið í framtíðinni hreinn útflytjandi bifreiðaeldsneytis úr íslenskri raforku.

„Ég hlakka til að vinna með ÍAV að þessu verkefni. ÍAV leggur fram mikla færni, þekkingu og áhuga á þessu verkefni ásamt reynslu og áherslu á verkgæði. Verksmiðjan er stórt skref fram á við. Hún mun auka loftgæði við Grindavík og fjölbreytni verkefna á svæðinu og framleiðslu innanlands,“ sagði KC Tran, forstjóri Carbon Recycling International.

„Við fögnum því að vinna með CRI, sem er mjög framsækið frumkvöðla- og tæknifyrirtæki á sviði hreinna orkugjafa. Það er okkur einnig ánægja að taka þátt í að setja saman fyrstu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum til framleiðslu á vistvænu eldsneyti, byggða á íslenskri tækni,“ sagði Karl Þráinsson forstjóri ÍAV.

 

 

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn