Almennar fréttir

11. júlí 2006

ÍAV standa að tölvuvæðingu á Seychelleseyjum

ÍAV ásamt fleiri íslenskum fyrirtækjum standa að tölvuvæðingu 10 grunnskóla á Seychelleseyjum í Indlandshafi.Mikil og breið samstaða íslenskra fyrirtækja hefur náðst í að aðstoða eyjaskeggja svo unnt sé að gera æskunni þar hærra undir höfði. Verkefnið hefur verið leitt af ÍAV en Guðmundur B. Hólmsteinsson, starfsmaður ÍAV, kom því af stað.Hugmyndin kviknaði hjá Guðmundi og dóttur hans þegar þau heimsóttu grunnskóla á eyjunum í fyrra. Í framhaldi af því átti Guðmundur fund með fulltrúa Menntamálaráðherra Seychelleseyja í nóvember sl. og kynnti þá hugmynd að safna gömlum tölvum frá fyrirtækjum á Íslandi til að nota í grunnskólum eyjanna. Var þeirri hugmynd mjög vel tekið.Þegar heim kom var farið af stað í að leita að styrktaraðilum að verkefninu og voru undirtektir fyrirtækja og stofnana mjög góðar enda verkefnið ákaflega gott. Megin tilgangur þessa samstarfsverkefnis er að láta gott af sér leiða og styðja við bakið á ungdómnum á Seychellseyjum og er í raun sameiginleg þróunaraðstoð íslenskra fyrirtækja.Gert er ráð fyrir áframhaldandi aðstoð með áframhaldandi sendingu tölva til eyjanna.

Efnahagur eyjanna er ansi bágborinn en þar búa um 80 þúsund manns. Milli 30 og 40% tekna ríkissjóðs koma frá ferðamönnum, en 70% gjaldeyris. Aðrar tekjur koma frá túnfiskvinnslu, kókosolíu og kanilbörkvinnslu. Ferðamannaiðnaðurinn hefur dalað talsvert síðustu misseri og má þar um kenna ýmsum þáttum eins og 11. september og flóðbylgjunni Tsunami um síðustu jól. Nemendur í skólum eyjanna eru um 22 þúsund sem er verulega hátt hlutfall íbúa eða um 28%. Kennarar eru um 1.500 talsins á öllum skólastigum.Það er ljóst að það er mikill kostnaður fyrir litla þjóð að reka þessa skóla þar sem ekki eru innheimt skólagjöld.

Núverandi styrktaraðilar verkefnisins eru Íslenskir aðalverktakar, Hafnarfjarðarbær, Opin Kerfi, Skýrr, Microsoft á Íslandi, Eimskip, Og Svo, Ískraft, Námsgagnastofnun, UNESCO, Nýherji, Alþingi, Glitnir, Merking, Tempra, . Stuðningur Opinna Kerfa og Skýrr er sá að þeir leggja til tæknimenn sem fara sem sjálfboðaliðar á staðinn til að sjá um uppsetningu og kennslu.Hafnarfjarðarbær leggur til mest af tölvubúnaðinum og einn tæknimann og Og Svo ehf einn sem fer á staðinn til að aðstoða við uppsetningu á búnaðinum. ÍAV ýttu verkefninu úr vör og koma einnig að þessu með því að senda tvo menn ásamt því að aðstoða við pökkun í gáma og frágang til sendingar. Microsoft sér um að hugbúnaðarleyfi séu í lagi. Ískraft leggur til raf- og tölvulagnabúnað. Námsgagnastofnun og UNESCO leggja til kennsluhugbúnað. Aðrir leggja til ýmsan búnað.

Búið er að senda tvo 20 feta gáma með rúmlega 230 tölvum ásamt net- og jaðartækjum.Sex menn fóru í lok maí til Seychelleseyja til að setja búnaðinn upp ásamt þarlendum tæknimönnum og kenna á hann. Sú ferð stóð í hálfan mánuð en síðan munu fleiri fara í kjölfarið til að þjálfa kennara og tæknimenn.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn