Geymsla

26. nóvember 2004

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir 473 milljónir króna og eykst um 37% milli ára.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 321 milljón króna samanborið við 246 milljónir króna árið áður. Tap fyrir skatta nam 277 milljónum króna samanborið við hagnað að upphæð 122 milljónir króna árið áður. Að teknu tilliti til reiknaðs tekju- og eignarskatts er tap tímabilsins 214,4 milljónir króna samanborið við 81,5 milljónir króna hagnað árið áður.

Umsnúningur rekstrarins milli ára skýrist af háum fjármagnsliðum, sem rekja má til gengisfalls íslensku krónunnar og óhagstæðrar vaxtaþróunar á fyrri hluta ársins. Þannig eru fjármagnsliðir nú neikvæðir um 561 milljón króna, samanborið við 138 milljónir króna á sama tíma á síðasta ári, en gengistap af skuldum félagsins á tímabilinu nam 472 milljónum króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar 8.756 milljónum króna í lok tímabilsins, en voru 8.768 milljónir króna í lok ársins 2000. Heildarskuldir voru 5.934 milljónir króna í júní lok, en til samanburðar voru þær 5.779 milljónir króna í árslok 2000. Bókfært eigið fé þann 30. júní nam 2.822 milljónum króna og er eiginfjárhlutfall samstæðunnar 32% samanborið við 34% í árslok 2000. Innra virði hlutafjár var 2,0 í lok tímabilsins, en var 2,1 í lok árs 2000.

Veltufé samstæðunnar frá rekstri var 111 milljónir króna, samanborið við 312 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2000. Handbært fé í lok júní var 297 milljónir króna og hafði þá lækkað um 179 milljónir króna frá áramótum. Veltufjárhlutfall var lok júní 1,34 í samanburði við 1,4 í árslok 2000.

Að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem ávallt fylgir verktakastarfsemi er afkoma úr verkum félagsins viðunandi. Rekstrarkostnaður hefur að mestu þróast eins og ráð var fyrir gert en þó hefur orðið vart nokkurra kostnaðarhækkana í kjölfar gengisfalls krónunnar og aukinnar verðbólgu á síðustu mánuðum.

Á tímabilinu var haldið áfram endurskipulagningu og hagræðingu innan félagsins. Auk fjárfestinga í verkum í vinnslu voru fjárfestingar í eignum og byggingarrétti til að leggja grunn að áframhaldandi eigin framkvæmdum til sölu bæði á atvinnuhúsnæðis- og íbúðamarkaði. Félagið heldur áfram þeirri stefnu að auka vægi eigin framkvæmda til að minnka sveiflur í starfseminni. Sá kostnaður og fjárbinding sem tengist eign á lóðum og byggingarrétti, á að skila félaginu nýjum tækifærum og aukinni arðsemi í framtíðinni.

Félagið hefur unnið að margvíslegum öðrum verkefnum það sem af er ári. Má í því sambandi nefna byggingu 92 herbergja hjúkrunarheimili fyrir Öldung við Sóltún í Reykjavík, byggingu grunnskóla á vestursvæði í Mosfellsbæ, endurnýjun flugbrautarljósa á Keflavíkurflugvelli, byggingu kjúklingasláturhúss í Mosfellsbæ og innréttingar í viðbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Loks er rétt að nefna að nú vinna nær 200 manns á vegum ÍAV að byggingu Vatnsfellsvirkjunar og er það verk á lokastigi og á áætlun. Gangsetning fyrri vélasamstæðu virkjunarinnar er áætluð 15. október n.k. Það er í samræmi við upphaflegar áætlanir og hefur tekist þrátt fyrir margháttaða erfiðleika vegna veðurs, breytinga á verkinu og stóraukins umfangs þess.

Árshlutareikning ÍAV má nálgast á skrifstofu félagsins að Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík og sækja á pdf-formi

Twitter Facebook
Til baka

07. mars 2011

Nýir vefir

Í framhaldi af skipulagsbreytingum sem kynntar voru um síðustu áramót er verið að leggja lokahönd á smíði vefa fyrir ÍAV, ÍAV Fasteignaþjónustu og ÍAV Námur.

21. janúar 2011

Gæðastefna ÍAV

Færni, frumkvæði og fagmennska starfsmanna ÍAV leiði til hagkvæmra og eftirsóttra lausna fyrir viðskiptavini.Starfsfólk ÍAV leggi áherslu á virðingu og traust í samskiptum við viðskiptavini, hagsmunaaðila og sín á milli.

Fréttasafn