Vaðlaheiðagöng

Jarðgöngin eru um 7,17 km löng í bergi og heildarlengd vegskála er 320 m, samtals 7,5 km. Þversnið er samkvæmt norskum reglum og nefnist T9,5, breidd þess er um 9,5 m í veghæð, þverskurðarflatarmál 66,7m2.

Fyrirhugaður gangamunni að vestan verður í landi Halllands á Svalbarðsströnd um 50 metrum til hliðar við núverandi hringveg, rétt norðan Halllandsness. Munninn verður þar í ríflega 60 m hæð yfir sjó og er aðkoma úr suðvestri. Göngin eru að mestu einhalla frá Eyjafirði upp til Fnjóskadals með 1,5% halla, aðeins um 500 m halla niður til Fnjóskadals.

Heildarlengd vegskála er um 320 m, 84 m Eyjafjarðarmegin og 224 m Fnjóskadals-megin. Í göngunum eru 14 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru fjögur steypt tæknirými og tvö við hlið vegskála. Göngin eru malbikuð með steyptum upphækkuðum öxlum.

Rafmagnsbúnaður og öryggisbúnaður er fjölþættur. Mest af búnaðinum er í sex tæknirýmum meðal annars 6 spennistöðvar. Þar sem eru útskot eru neyðarsímar í símaklefum en á milli útskota eru þeir í skápum á veggjum. Símaskáparnir eru einu skáparnir sem festir eru á veggi ganga, allir aðrir rafbúnaðarskápar eru í tæknirýmum. Loftræsiblásarar, 1 m í þvermál, eru 20 og eru tveir og tveir saman á fjórum svæðum við tæknirýmin inni í göngum. Verkið nær enn fremur til lagningar um 1,2 km langs vegar í Eyjafirði ásamt hringtorgi og um 2,9 km vegkafla í Fnjóskadal, eða samtals um 4,1 km. Í lagningu vega er einnig innifalin gerð vegtenginga á báðum stöðum. Fyllt verður yfir mest allt athafnasvæði verktaka Eyjafjarðarmegin og landið hækkað. Loks á að flytja afgangsefni í flughlað Akureyrarflugvallar. Eftir þetta er ekki gert ráð fyrir afgangsefni þeim megin en einhver afgangur verður Fnjóskadalsmegin.

Mörk vegagerðar Eyjafjarðarmegin eru rétt norðan Veigastaðavegar (828). Ný veglína fylgir eldri vegi að um 400 metrum frá gangamunna þar sem núverandi hringvegur (1) og verðandi Grenivíkurvegur verður tengdur með hringtorgi.

Að austan verður gangamunni í landi Skóga í Fnjóskadal og mun opnast skammt norðan Skóga, við gamla Vaðlaheiðarveginn (832). Munninn verður þar í um 160 m hæð yfir sjó og stefnir í norðaustur. Um 250 m norðan gangamunna verða vegamót þar sem Illugastaðavegur (833) er tengdur hringvegi. Þegar komið er að Nesgili í landi Ness, fylgir vegurinn eldri veglínu að landamerkjum Tunguness en þaðan sveigir hann í skeringum ofan eldri vegar að brúnni yfir Fnjóská og er núverandi Hringvegur tengdur skammt vestan brúar.

Verkkaupi Vaðlaheiðargöng hf
Verk hafið Febrúar 2013
Verklok Október 2019
Byggingaraðili Ósafl sf
Arkitektar THG arkitektar og úti inni arkitektar
Burðarþolshönnun VSB Verkfræðistofa
Lagnir og loftræstikerfi VSB Verkfræðistofa
Raflagnahönnun VSB Verkfræðistofa
65.694189,-18.05373|/media/163734/VadlaheidiLastBlast-032.jpg?width=250&height=109&mode=crop|Vaðlaheiðagöng|/starfsemi/verk/fyrri-verk/virkjanir-og-storidja/vadlaheidagong/| Jarðgöngin eru um 7,17 km löng í bergi og heildarlengd vegskála er 320 m, samtals 7,5 km. |terrain | blue | Nánar