Stefna félagsins

Íslenskir aðalverktakar hf, hér eftir nefnt ÍAV, fylgir lögum, reglum, kjarasamningum og öðrum kröfum sem snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma.

ÍAV er vinnustaður þar sem konur og karlar eru metin á eigin forsendum, hafa jafna möguleika og sömu réttindi í starfi og til starfsframa. ÍAV skapar vettvang til virkrar umræðu og vitundar um jafnréttismál.

Hjá ÍAV er öll mismunun, s.s. á grundvelli kynferðis, aldurs, uppruna, trúarbragða, starfssviðs, skoðana eða stöðu, óheimil. Megináherslur ÍAV hf í jafnréttismálum eru:

1. Að karlar og konur eiga jafna möguleika til starfa og starfsþróunar.

2. Að stefnt sé að jöfnun á kynjahlutfalli meðal starfsmanna og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.

3. Að greiða konum og körlum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf.

4. Eftir því sem kostur er að gera starfsmönnum kleift að samræma vinnu og einkalíf.

5. Að koma í veg fyrir einelti, áreiti, fordóma, kynbundið ofbeldi, kynbundna eða kynferðislega áreitni.

6. Að konur og karlar hafi sömu tækifæri til náms og fræðslu.

7. Að leggja áherslu á gagnkvæma virðingu og kurteisi gagnvart starfsmönnum og öllum viðskiptaaðilum fyrirtækisins.

Jafnréttisstefna þessi gildir fyrir allt starfsfólk á öllum starfsstöðvum ÍAV og er lögð áhersla á að allir starfsmenn starfi og hegði sér í anda hennar. Jafnréttistefnan skal yfirfarin eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.