Stefna félagsins


Reglur um stjórnarhætti sem félagið fylgir eða ber að fylgja samkvæmt lögum og hvar slíkar reglur eru aðgengilegar almenningi.

Stjórn og forsvarsmenn ÍAV viðhafa góða stjórnarhætti svo að tryggt sé að störf stjórnar sem og starfsemi félagsins í heild uppfylli þau viðmið sem gilda um góða viðskiptahætti.

Félaginu ber ekki lagalega skylda til að fylgja reglum um stjórnarhætti en hefur samt sem áður til hliðsjónar leiðbeinandi reglur um Stjórnarhætti fyrirtækja sem urðu til úr samstarfi Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Góðir stjórnarhættir eru aðgengilegir í 6. útgáfu frá 1.07.2021 á https://leidbeiningar.is/.

Reglur og viðmið sem farið er eftir og eiga sérstaklega við um þá tegund rekstrar sem félagið er í.

Stjórnarhættir félagsins taka fyrst og fremst mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og ofangreindum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.

Lýsing á helstu þáttum innra eftirlits og áhættustjórnun félagsins.

Stjórn, forstjóri og framkvæmdastjórn eru ábyrg fyrir innra eftirliti félagsins til að lágmarka áhættu á svikum og villum í starfsemi félagsins, meta helstu áhættur í starfsemi þess og hafa eftirlit með þeim. Stjórn skal sjá til að nægt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Verkferlar hafa verið settir upp innan félagsins auk reglna um aðgreiningu starfa. Þá hafa verið settar verklagsreglur sem eiga að tryggja eftirlit með tekjuskráningu og rekstrarkostnaði. Ársfjórðungsleg uppgjör eru unninn og lögð fyrir framkvæmdastjórn.

ÍAV var gæðavottað samkvæmt ISO 9001 árið 2009 og var sú vottun endurnýjuð 2018. ÍAV fékk OHSAS 18001 öryggisvottun árið 2014 sem var uppfærð í ISO 45001 vorið 2020.

Stefna félagsins um samfélagslega ábyrgð og siðferðisviðmið.

Félagið hefur sett sér stefnu um samfélagslega ábyrgð og siðferði og hægt er að nálgast nánari upplýsingar um framangreind atriði á heimasíðu félagsins.

Samsetning og starfsemi stjórnar, framkvæmdastjórnar og undirnefnda stjórnar.

Stjórn félagsins er skipuð þremur einstaklingum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Leiði kosning stjórnarmanna til þess að skilyrði hlutafélagalaga um kynjahlutföll séu ekki uppfyllt, skal kosið aftur þar til skilyrðin eru uppfyllt. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og stýrir helstu málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskrift tveggja stjórnarmanna skuldbindur félagið.

Framkvæmdastjórn félagsins er skipuð fimm einstaklingum, forstjóra, fjármálastjóra, framkvæmdastjóra framkvæmda, framkvæmdastjóra jarðvinnu og framkvæmdastjóra tækni og þjónustu. Fara þeir með daglegan rekstur félagsins.

Fyrirkomulag skipunar nefndarmanna tilnefningarnefndar.

Hluthafasamsetning í félaginu er sem stendur með þeim hætti að ekki þykir nauðsynlegt að starfrækja tilnefningarnefnd.

Fyrirkomulag skipunar nefndarmanna undirnefnda stjórnar.

Stjórn félagsins getur sett á fót undirnefnd stjórnar og komi til slíks skal stjórn félagsins setja viðkomandi nefnd starfsreglur. Enginn slík nefnd er starfandi hjá félaginu í dag.

Upplýsingar um fjölda stjórnarfunda og funda undirnefnda og mætingu.

Stjórnarfundir skulu haldnir að lágmarki einu sinni á ári og boðar stjórnarformaður til stjórnarfundar. Forstjóri skal sitja stjórnarfundi, nema stjórn félagsins ákveði annað. Aðrir fundir stjórnar skulu haldnir eftir því sem þörf er á. Fundir framkvæmdastjórnar eru að jafnaði haldnir á tveggja mánaða fresti.

Starfsreglur stjórnar og undirnefnda.

Stjórn félagsins starfar eftir starfsreglum félagsins þar sem kveðið er um störf hennar.

Upplýsingar um stjórnarmenn.

Í stjórn félagsins, kosin á aðalfundi 16. apríl 2021 sitja, Sigurður Ragnarsson stjórnarformaður, Monika Koehli og Daniel Schorro. Nánari upplýsingar um stjórnarmenn má finna á heimasíðu félagsins.

Upplýsingar um hvaða stjórnarmenn eru óháðir félaginu og stórum hluthöfum.

Enginn stjórnarmaður félagsins er óháður því. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu Reto Manuel Marti og eru allir stjórnarmenn einnig starfsmenn félagsins eða tengdra félaga.

Helstu þættir í árangursmati stjórnar.

Mat og endurgjöf á störf framkvæmdastjórnar og störf stjórnar er í höndum hluthafans/eiganda og metið árlega.

Upplýsingar um forstjóra félagsins og lýsing á helstu skyldum hans.

Forstjóri hefur með höndum daglegan rekstur félagsins og kemur fram fyrir hönd þess í málefnum sem varða hefðbundinn rekstur þess. Hlutverk forstjóra er skilgreint í samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar, sem og í ráðningarsamningi við félagið.

Þóroddur Ottesen Arnarson, forstjóri ÍAV er viðskiptafræðingur, fæddur 6. apríl 1970

Þóroddur tók við starfi forstjóra 1. maí 2021. Þóroddur útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1994.  Hóf störf hjá Ármannsfelli hf. sama ár í fjármáladeild og sem fjármálastjóri 1996 til 1998.  Í árslok 1998 sameinaðist Ármannsfell Íslenskum aðalverktökum og hefur Þóroddur unnið hjá Íslenskum aðalverktökum síðan þá við ýmis störf á fjármálasviði og sem fjármálstjóri frá 2005 ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn. Þóroddur hefur einnig verið í stjórn ÍAV Marti Búrfells sf.

Þóroddur á enga hluti í félaginu og engir kaupréttarsamningar hafa verið gerðir við hann.

Upplýsingar um brot á lögum og reglum sem viðeigandi eftirlits- og eða úrskurðaraðili hefur ákvarðað.

Ekki hefur verið úrskurðar um nein brot á lögum og reglum sem viðeigandi eftirlits- og eða úrskurðaraðili hefur ákvarðað.

Fyrirkomulag samskipta hluthafa og stjórnar

Hluthafi fer með æðsta vald í málefnum félagsins í samræmi við lög og samþykktir þess. Samskipti hluthafa og stjórnar fara fram á hluthafafundum.

 

Reykjavík 16.apríl 2021