Saga

Landsbankinn

Landsbankinn

Saga félagsins

ÍAV er alhliða verktakafyrirtæki með starfsemi á Íslandi. Hjá fyrirtækinu starfar samheldinn hópur um 240 starfsmanna.  Verkefni ÍAV eru á öllum sviðum mannvirkjagerðar m.a. virkjana- og hafnarframkvæmdir, vega- og brúargerð, jarðganga- og jarðvinnuframkvæmdir auk alhliða byggingaframkvæmda.

ÍAV er eitt stærsta og öflugasta verktakafyrirtæki landsins og býr það yfir áratugareynslu í mannvirkjagerð.

Verkefni ÍAV eru á öllum sviðum byggingariðnaðar hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði,atvinnuhúsnæði, opinberar byggingar eða aðra mannvirkjagerð sem og jarðgangagerð og jarðvinnuframkvæmdir bæði hérlendis og erlendis.

ÍAV leggjur mikla áherslu á að ráða kraftmikla og framsækna einstaklinga til starfa. Í boði er góð starfsaðstaða starfsmenn eru ánægðir með starfsandann og metnað innan fyrirtækisins.

ÍAV í dag

ÍAV – Íslenskir aðalverktakar hf. voru stofnaðir 31. maí 1997 með yfirtöku ákveðinna eigna og skuldbindinga, ásamt öllum verksamningum Íslenskra aðalverktaka sf. sem þá höfðu starfað sem verktakar á varnarsvæðum hérlendis allt frá 1954.

Frá þeim tíma til dagsins í dag hafa orðið verulegar breytingar á rekstri og stjórnskipulagi félagsins en félagið stefnir markvisst að því að vera alhliða fyrirtæki á öllum sviðum mannvirkjagerðar bæði hvað varðar nýsköpun, fjármögnun og framkvæmdir.

ÍAV er eitt stærsta og öflugasta verktakafyrirtæki landsins og er félagið öflugur þátttakandi á öllum sviðum byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, opinberar byggingar, jarðgangagerðar, jarðvinnu eða gatnagerð.

ÍAV hf er nú alfarið í eigu Marti Holding AG frá Sviss sem var stofnað 1922. Marti Holding á um 80 fyrirtæki víðsvegar um heim sem eru öll rekin sem sjálfstæðar einingar.

ÍAV í árdaga

Íslenskir aðalverktakar sf. voru upphaflega stofnaðir að frumkvæði íslenskra stjórnvalda til að uppfylla samningsskyldur Íslands gagnvart Bandaríkjum Norður-Ameríku samkvæmt samningi um íslenska verktöku fyrir varnarliðið frá 1954. Félagið er því 65 ára á árinu 2019 og er elsta starfandi verktakafyrirtæki á Íslandi.

Tilgangur félagsins
Íslenskir aðalverktakar sf. voru upphaflega stofnaðir að frumkvæði íslenskra stjórnvalda og rekstur félagsins byggðist á árlegri tilnefningu utanríkisráðherra til verktöku fyrir varnarliðið til eins árs í senn. Félagið var upphaflega stofnað til að uppfylla samningsskyldur Íslands við Bandaríkin samkvæmt samningi um verktöku frá 1954.

Meginatriði þess samnings voru meðal annars:

  • Að allri verktöku á vegum varnarliðsins yrði hagað þannig að komið væri í veg fyrir neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf.
  • Að íslenskir verktakar, tilnefndir af ríkisstjórn Íslands, sæju um alla verktöku sem þeir væru færir um.
  • Að íslenskir verktakar tækju að sér rekstur á verktakabúðum og verkstæðum bandarísku verktakanna sem höfðu annast framkvæmdir þar.
  • Að fylgt yrði íslenskum stöðlum við hönnun á þeim mannvirkjum varnarliðsins sem ekki væru varnarmannvirki.

Meginósk Bandaríkjamanna var að til væri íslenskur verktaki sem væri svo öflugur og vel búinn að hann gæti með stuttum fyrirvara tekið að sér hvaða verkframkvæmd sem þörf reyndist á.

Stofnun Íslenskra aðalverktaka sf. með þátttöku ríkisins var aðferð stjórnvalda til að tryggja að svo yrði og uppfylltu Íslenskir aðalverktakar sf. ávallt þær samningsskyldur með óaðfinnanlegum hætti.

Tæknivæðing og starfsmenntun

Á þeim tíma, þegar Íslenskir aðalverktakar sf. hófu starfsemi sína, voru tæpast til í landinu þau tæki og verkþekking sem dugðu til varnarframkvæmda nema hjá Bandaríkjamönnum og verktökum þeirra.

Yfirtaka verktökunnar var merkilegur áfangi í iðnsögu Íslands sem reyndist drjúgur skóli fyrir starfsmenntun á sviði byggingariðnaðar.

Á vegum fyrirtækisins voru flutt inn til landsins ýmsar vélar og tæki sem ekki höfðu áður sést í íslenskri verktakastarfsemi og sá þess fljótt stað í ýmsum íslenskum framkvæmdum víða um land.

Íslenskir aðalverktakar sf. og ekki síður fyrirrennarar þeirra, Sameinaðir verktakar sf., stóðu einnig að fjölbreyttri menntun byggingarmanna með námsferðum til Bandaríkjanna og ýmsum öðrum hætti í tengslum við sérhæfð verkefni og áttu með því drjúgan þátt í framþróun íslenskrar verkmenningar.

Allt var þetta gert með góðum stuðningi íslenskra stjórnvalda og ekki síður Bandaríkjamanna sem vildu alla tíð stuðla að því að yfirfærsla þekkingar héldist í hendur við flóknar framkvæmdir sem fyrirtækið annaðist sem verktaki fyrir varnarliðið.

Breytt skipan
Upp úr 1990 varð ljóst að þeirri skoðun hafði vaxið fylgi að breyta ætti verktökufyrirkomulagi á Íslandi. Bandalagsþjóðir Íslands í NATO stefndu að breyttu fyrirkomulagi en stöðugt stærri hluti varnarframkvæmda var frá þeim tíma fjármagnaður af Mannvirkjasjóði NATO.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti árið 1992 að útboð framkvæmda á vegum NATO yrðu opin fyrirtækjum í öllum aðildarlöndum bandalagsins.

Í framhaldi af því var í samningum íslenskra og bandarískra stjórnvalda í ársbyrjun 1996 tekin ákvörðun um að afnema í áföngum það fyrirkomulag að íslensk stjórnvöld tilnefndu verktaka til að semja um framkvæmdir á varnarsvæðum og að stefnt yrði að frjálsum útboðum verkefna í framtíðinni.

Í dag eru Íslenskir aðalverktakar þekkingarfyrirtæki á sviði verktöku. Starfsmenn eru sérfræðingar á sviði byggingatækni og nýta sér allar nútímaaðferðir við framkvæmdir.

 

Byggingasaga ÍAV frá 1954 til 2016