Fréttir

Heilög Barbara heiðruð
04. desember 2008

Heilög Barbara heiðruð

Jarðgangagerðarmenn Ósafls í Bolungarvík héldu daginn, 4. desember, hátíðlegan og fögnuðu degi heilagrar Barböru, verndardýrlings námumanna. Starfsmenn Ósafls eru margir hverjir kaþólskir og þótti við hæfi að sameina hátíðarhöld tengd Barböru við jólahátíðina. Byrjað var á því að fara inní göng og þar voru tvær styttur blessaðar af kaþólskum presti og annarri komið fyrir í þar til gerðum skáp svo að líkneski af Barböru blasir við þegar keyrt er í göngin. Eftir nokkur ræðuhöld söng karlakórinn Ernir nokkur lög. Starfsmenn Ósafls efndu til veislu þar sem glæsilegar veitingar voru í boði eftir athöfnina á framkvæmdasvæði Ósafls við Ós í Bolungarvík.


Hópuppsögn vegna efnahagserfiðleika
27. nóvember 2008

Hópuppsögn vegna efnahagserfiðleika

Í ljósi mikils samdráttar í íslensku efnahagslífi undanfarna mánuði og vegna efnahagslegra afleiðinga fjármálakreppunar, hefur orðið mikill samdráttur á verktaka- og fasteignamarkaði. Mikil óvissa er um öflun nýrra verkefna og sökum þess neyðist ÍAV til þess að segja upp 151 starfsmanni. Þá verður 19 starfsmönnum til viðbótar boðin önnur störf innan félagsins eða lækkað starfshlutfall. Uppsagnirnar ná til starfsmanna úr öllum þeim starfsstéttum er starfa hjá félaginu og hefur Vinnumálastofnun verið tilkynnt um uppsagnirnar. Eftir uppsagnirnar munu yfir 400 manns starfa hjá ÍAV auk nokkur hundruð starfsmanna undirverktaka.

Búið að sprengja meira en kílómeter í Bolungarvíkurgöngunum
21. nóvember 2008

Búið að sprengja meira en kílómeter í Bolungarvíkurgöngunum

Gangagreftri í Bolungarvíkurgöngum miðar vel áfram. Í síðustu viku voru sprengdir 54 metrar Hnífsdalsmegin, þ.m.t. neyðarútskot, og var lengdin þar orðin tæpir 400 metrar. Bolungarvíkurmegin voru sprengdir 67 metrar og var lengdin þar rúmir 600 metrar. Samtals voru sprengdir 121 metrar í síðustu viku og lengd ganganna orðin rúmlega kílómeter eða um fimmtungur af heildarlengd ganganna. Lengd þeirra jókst því um 2,5% í síðustu viku.

Heilbrigðisstarfsemi vex fiskur um hrygg í Glæsibæ
18. nóvember 2008

Heilbrigðisstarfsemi vex fiskur um hrygg í Glæsibæ

Mikil heilbrigðisstarfsemi er í glæsilegu nýbyggðu húsi við Glæsibæ. ÍAV hófu byggingaframkvæmdir í mars 2006 en húsið er 10.000 fermetrar að stærð á átta hæðum auk kjallara á tveimur hæðum. Einnig byggðu ÍAV bílastæðahús milli hússins og eldra húss Glæsibæjar á þremur hæðum með um 400 bílastæðum.

Árangur ÍAV í öryggismálum í Helguvík til fyrirmyndar
14. nóvember 2008

Árangur ÍAV í öryggismálum í Helguvík til fyrirmyndar

Góður árangur í öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismálum hefur náðst hjá ÍAV við byggingu kerskála fyrir álverið í Helguvík. Fyrsta skóflustungan að nýju álveri var tekin þann 7. júní s.l. Starfsmenn ÍAV hafa unnið 50.000 klukkustundir, sem jafngildir 25 mannárum, við verkið án fjarveruslysa. Fjarveruslys eru þau slys þar sem starfsmaður getur ekki komið til vinnu daginn eftir slysið.

Fyrstu súlurnar rísa í álverinu í Helguvík
05. nóvember 2008

Fyrstu súlurnar rísa í álverinu í Helguvík

Starfsmenn ÍAV eru byrjaðir að reisa fyrstu súlurnar í byggingu kerskála fyrir álver í Helguvík. Súlurnar eru um 160 talsins og eru 8 metra háar, 22 tonn hver að þyngd. Alls verða 160 súlur reistar í kerskálunum tveimur sem verða 26 metra breiðir og 400 metra langir eða rúmlega 10.000 fm hvor skáli. Búið er að steypa undirstöður undir helming súlnanna. Síðustu vikur hefur verið unnið í að grafa lagnir í jörð auk annarrar jarðvinnu. Um 75 manns vinna að verkinu á vegum ÍAV.

Þjónustustöð N1 við Bíldshöfða
17. október 2008

Þjónustustöð N1 við Bíldshöfða

ÍAV hófu í janúar 2008 að byggja nýja þjónustustöð fyrir N1 við Bíldshöfða. Um er að ræða verulega stækkun á lóð og byggingu tveggja húsa þar sem N1 var með bensínstöð. Byggð var þjónustustöð sem er um 515 fermetrar að stærð. Sambærileg þeim sem ÍAV hafa áður byggt fyrir N1 í Fossvogi, við Hringbraut, í Borgartúni og Mosfellsbæ. Auk þess var byggt um 500 fermetra dekkja- og smurverkstæði með dekkjahóteli í kjallara. Bætt aðgengi er að metanafgreiðslu, með fleiri metandælum sem settar voru upp á dælueyjum. Metanlögn sem liggur frá Álfsnesi er tengd inn á stöðina og er hún birgðastöð. Jafnframt er stöðin nýtt sem átöppunarstaður fyrir metangáma. Stöðin var tekin í notkun í byrjun júlí 2008.

Vélsmiðja á Reyðarfirði
17. október 2008

Vélsmiðja á Reyðarfirði

Í nóvember 2007 hófu Íslenskir aðalverktakar vinnu við rúmlega 4.000 fermetra stálgrindarhús að grunnfleti að Hrauni 5 í Reyðarfirði. Húsið skiptist í 1340 fermetra kerverkstæði, rafmagnsverkstæði sem er um 320 fermetrar, vélaverkstæði sem er um 1060 fermetrar, renniverkstæði sem er um 670 fermetrar, verslun sem er um 200 fermetrar, dauðhreinsiherbergi sem eru 50 fermetrar og kaffi og matsalur sem er 430 fermetrar.

Vélaverkstæði við Melabraut í Hafnarfirði
17. október 2008

Vélaverkstæði við Melabraut í Hafnarfirði

ÍAV byggðu Við Melabraut á Hvaleyraholtinu í Hafnafirði stálgrindarverkstæði fyrir Vélaverkstæði Hjalta. Í verkinu fólst að reisa 900 fermetra skemmu og 300 fermetra steinsteypt geymslurými. Stálgrindarskemman var klædd með einangrunarpanil úr áli. Hafist var handa við að byggja skemmuna í desember 2007, en áður hafði hús verið rifið sem stóð á byggingarstaðnum. Verklok voru í september 2008.

Uppgreftri lýkur vegna rafstrengjaverkefnis
19. september 2008

Uppgreftri lýkur vegna rafstrengjaverkefnis

Senn lýkur lagningu 132kV rafstrengja fyrir Orkuveitu Reykjavíkur en uppgreftri er lokið. Um miðjan september 2007 hófst undirbúningsvinna hjá ÍAV. Strengirnir eru alls um 10,2 km að lengd, liggja á milli aðveitustöðva við Korpu og Borgartún. Auk þess hafa fjarskiptastrengir verið lagðir samhliða. Verkið hefur gengið einkar vel en borað var og lagðar lagnir undir 14 götur auk Elliðaár.