Framkvæmdir ganga hraðar en áætlun gerði ráð fyrir
Framkvæmdir við tvöföldun síðasta kafla Reykjanesbrautar ganga afar vel og stefnt er að því að klára verkið fyrir árslok. Kaflinn nær frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni, og það er ÍAV sem sér um framkvæmdina fyrir Vegagerðina.
„Við erum vel á undan áætlun og höfum náð að vinna hratt og örugglega þrátt fyrir mikla umferð um svæðið,“ segir Ágúst Jakob Ólafsson, verkstjóri hjá ÍAV. „Malbikun er í fullum gangi og við stefnum að því að opna nýju akreinarnar í haust.“
Öryggi og umferðarflæði stóraukið
Með tvöfölduninni eykst bæði flæði og öryggi verulega á einni fjölförnustu leið landsins. Í verkinu felst m.a. lagning nýs malbiks, uppbygging nýrra akreina, undirgöng, betri lýsing og fullur frágangur að nútímakröfum.
Vegagerðin hefur hrósað framgöngu verksins og faglegu skipulagi ÍAV. Þá hefur einnig verið lögð áhersla á öryggi á vinnusvæðinu, en hraðakstur vegfarenda hefur verið áskorun og biðlað er til almennings að sýna aðgát á framkvæmdasvæðinu.
Tímamót í samgöngum á Suðvesturlandi
Þegar þessum áfanga lýkur verður Reykjanesbrautin öll orðin tvöföld, sem markar tímamót í samgöngumálum svæðisins. Framkvæmdirnar eru mikilvægt framlag til aukins öryggis, hagkvæmari flutninga og betri þjónustu við almenning.
Við hjá ÍAV erum afar stolt af því að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og leggja okkar af mörkum til framtíðaruppbyggingar samgöngumannvirkja á Íslandi.